9.9.2008 | 20:27
Ljósanæturhelgin
Þetta var nú meiri helgin. Á föstudagskvöldinu byrjaði fjörið. Ég var bara búin að vinna í fimm daga í bakaríinu en var samt boðin velkomin í fimmtugsafmæli eigandans. Og makinn líka. En ég fór ein því bóndinn var í aukavinnu og kom rétt á eftir mér um kvöldið, rétt upp úr 11. En það var annsi gaman í veislunni og ágætis mæting. Svo á laugardagsmorguninn fór ég í vinnuna og var mætt klukkan 8. Haukur var þá mættur sem betur fer. Hann opnaði búðina um 8:15 og það var stanslaus biðröð til 11, fékk engan tíma til að fylla á neitt og Haukurinn var sem minn þræll þennan morgun. Á endanum hringdi hann í aðra manneskju og kom hún rétt þegar törnin var að verða búin. Hún átti reyndar að koma um 12 svo að 45 mín til gera ekkert til. Komst ég heim um 12:30, hálftíma seinna en áætlað var.
Seinna um daginn fór ég svo á göturölt og kíkti á sýningarnar hjá Guðmundi og svo hjá Jens og komst svo ekki hjá því að kíkja á bátasafnið. Þar rakst ég á gamlan kunningja, Gunnar SU 20, en með þeim bát fór ég mína fyrstu siglingu til útlanda en pabbi var þá kokkur. Fórum við þá til Þýskalands en seinna kölluðu systur mínar landið Fiskaland, héldu að það héti það því það væru allir að sigla þangað með fisk. En rosalega var gaman að sjá líkanið. Rifjuðust upp minningar. Siglingin, sjómannadagurinn, að bíða eftir pabba þegar hann kom úr siglingum eða úr veiðitúrum, þegar mamma var að baka fyrir skipið.
Og svo kom kvöldskemmtunin. Ég og dóttirin fórum einar, sonurinn var eitthvað að drepast í löppinni og bóndinn í aukavinnu. Vorum við aðallega að labba og athuga hvort við könnuðumst við einhverja. Svo þegar nær dró flugeldasýningunni fórum við nær smábátahöfninni í Grófinni því mig langaði ekki að lenda í umferðartrafík út úr bænum. Bóndinn ætlaði að vera kominn um 10 að þvottaaðstöðu SBK en sem betur fer sá ég að hann kæmist ekki að, því fólk var búið að LEGGJA BÍLUNUM FYRIR FRAMAN DYRNAR. þegar ég hringdi í hann var einn að leggja þar og hann heyrði að ég var að tala við einn bílstjóra sem ætti eftir að koma en viti menn, þessi maður horfði bara á mig , talaði við annan mann þarna og labbaði í burtu. Eins og að hann ætti þetta plan. Sumir eru svolítið einir í heiminum. Þannig að bóndinn fór á rútunni heim. En DJÖ var flugeldasýningin flott, miklu flottari en á Menningarnót í Reykjavík. Þetta sagði fólkvið mig sem býr í bænum. Bomburnar voru frábærar. Og litirnir. Ef ég kynni að mála þá væri þetta mitt aðal myndefni. Ég er bara farin að hlakka til næstu Ljósanætur. Tel niður dagana.
Athugasemdir
já sennilega, við dóttirin vorum undir brúnni regnhlíf með kínverskum stöfum til að skíla okkur fyrir vindinum.
Anna Heiða Stefánsdóttir, 10.9.2008 kl. 13:17
ohh hvað mig langaði að vera þarna, en við komum þá bara á næsta ári ;) Litli lungabólgusjúklingurinn var svo reyndar bara í bullandi stuði þarna á laugardaginn og ekki hægt að sjá á henni að hún væri með lungnabólgu auk þess sem hún var alveg hitalaus, en við komum á næsta ári vona ég ;)
Hilda (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 10:12
Ég var ekki búinn að þakka fyrir komuna frænka ? En geri það hér með æðislegt að hitta ykkur ! En það var geggjað að gera og ég ekki að geta sinnt því að vera almennilegur frændi sorry bæti úr því seinna kveðja og takk
Jens Hjelm (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.