10.11.2008 | 13:09
ég minnist þín
Í dag eru 2 ár síðan pabbi dó úr krabbameini. Hann greindist 9 árum áður en vitað er að það kom miklu fyrr. Ég minnist allra ferðanna sem við fórum, hvort sem það var á bjöllunni, trabbanum eða siglandi. Hvað er hægt að koma mörgum krökkum auk 2 fullorðinna í eina bjöllu?? 8 eða 9, ég man ekki alveg hvað við vorum mörg en ég man hvar ég var!! Og ég var guðslifandi feginn að við mættum ekki Skebba löggu. En svona var gert einu sinni þegar það var vitlaust veður og við þurftum að komast í skólann, krakkarnir í hverfinu voru bara pikkaðir upp og í skólann komumst við. Svo allar veiðiferðirnar upp í Ánavatn, þar var gaman. Og siglingarnar til Þýskalands og Englands þegar ég var 11, 17 og 20 ára.
Það er svo margt sem er að brjótast í kollinum á mér núna, minningar, minningar. Þegar við löbbuðum að Gljúfravatni, vatninu þínu, og settumst niður til að hvíla okkur. Þú, mamma og strákarnir fjær klettabrúninni en ég fremst til að kíkja niður þrátt fyrir lofthræðsluna og hvað skeður? Appelsínan mín sem ég ætlaði að fara að taka utanað rúllaði niður klettinn og niður að vatni, nokkuð margir metrar, og þú fórst niður og ætlaðir bara að leita að henni en fannst og komst með hana til mín og ég held að ég hafi aldrei fengið betri appelsínu.
En núna er að horfa fram á veginn og vera ánægð með að þínar þjáningar eru búnar. En ég veit að þú getur gengið núna, mig dreymdi það og er ég virkilega ánægð með það. Ég mun muna þig eins og þú varst upp á þitt besta en ekki eins þú varst þegar veikindin voru sem verst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.